Á döfinni

Snjóflóðaráðstefnan 2024 (8/19/2024)

Snjóflóðasamtök Íslands standa fyrir ráðstefnu um snjóflóðamál þann 10. október 2024 í húsi Verkís, Ofanleiti 2, Reykjavík. Ráðstefnan er opin öllum áhugasömum og er viðfangsefnið valið sérstaklega til þess að höfða til breiðs hóps af áhugafólki og fagfólki.

Þema þessarar fyrstu ráðstefnu Snjóflóðasamtakanna er “snjóflóð af mannavöldum” og verða áherslur ráðstefnunnar eftirfarandi:

1. Mat á snjóflóðahættu: Hvernig snjóflóðahætta er metin af mismunandi aðilum. Hér getur áherslan verið allt frá svæðisbundinni snjóflóðaspá Veðurstofunnar að mati á snjóflóðaaðstæðum á skíðasvæðum eða leiðarvali leiðsögumanna og einstaklinga í snjóflóðalandslagi.

2. Mannlegi þátturinn: Snjóflóð af mannavöldum eru alltaf samspil mannlegra þátta og snjóaðstæðna. Hér er áherslan á það sem snýr að mannlega þættinum. Hvernig eru ákvarðanir teknar og hvað hefur áhrif á þær?

3. Snjóflóðaatvik: Það er mikilvægt að læra af þeim atvikum sem koma upp, hvort sem það eru slys eða atvik þar sem hefði getað orðið slys. Hvatt er til þess að fólk deili reynslu sinni af snjóflóðum af mannavöldum. Einnig er óskað eftir erindum um viðbragð og björgun í snjóflóðaslysum í óbyggðum.

4. Snjóalög og vísindi: Hér er áherslan á myndun óstöðugra snjóalaga og varðveislu veikleika í snjónum.
Óskað er eftir tillögum um erindi og rennur fresturinn út þann 15. september.

Ráðstefnugjald:
Ókeypis fyrir fyrirlesara.
2000 kr. fyrir félaga og nema.
5000 kr. fyrir aðra.

Skráning fer fram hér: https://forms.gle/XL3ZG54TxGNF7x9P7

Málþing um snjóflóð (9/7/2023)
Nýstofnuð Snjóflóðasamtök Íslands bjóða til málþings um snjóflóð! Nú fer að líða að vetri og ekki seinna vænna en að leiða hugann að þessu mikilvæga málefni sem snertir okkur öll.

(more…)

Snjóflóðasamtök Íslands

Á Íslandi glímir ótrúlega fjölbreyttur hópur við snjóflóð. M.a. arkitektar og verkfræðingar í sambandi við mannvirkjagerð, hættumatssérfræðingar og starfsfólk sveitafélaga við skipulagsgerð. Sérfræðingar á snjóflóðavakt, snjóathugunarmenn, starfsfólk almannavarna og lögreglu. Leiðsögumenn í vetrarferðum hvort sem það er á skíðum, vélsleðum, þyrlum, snjótroðurum eða tveimur jafnfljótum. Starfsfólk skíðasvæða, snjóruðningsfólk, björgunarsveitarfólk, aðgerðarstjórnendur, þjálfarar snjóflóðahunda. Og svo lengi mætti telja.

Vorið 2023 komu saman fulltrúar frá Veðurstofunni, Vegagerðinni, Félagi Fjallaleiðsögumanna, Slysavarnarfélaginu Landsbjörg og Samtökum Skíðasvæða. Tilgangurinn var að stofna samtök með það markmið að búa til samráðsvettvang fyrir málefni tengd snjóflóðum. Fyrirmynd að slíkum samtökum kemur erlendis frá en Íslendingar hafa tekið þátt í öðrum landssamtökum s.s. Norsk Skredfaglig ForeningCanadian Avalanche Association og American Avalanche Association.

Þann 2. nóvember 2023 var haldin stofnfundur Snjóflóðasamtaka Íslands í fundarsal Veðurstofu Íslands.

Ef þú starfar við snjóflóð, hvort sem það er launað starf eða í sjálfboðavinnu og hefur áhuga á að taka þátt í ört vaxandi samfélagi smelltu þá á hlekkinn hér fyrir ofan til að sækja um aðild.